Um

Róbert Wessman

Sagan

Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri

Róbert Wessman er forstjóri, stjórnarformaður og stofnandi Alvotech, stjórnarformaður Alvogen og stjórnarformaður Lotus. Róbert Wessman leiðir fjárfestingafélagið Aztiq.

Róbert markaði sér skýra stefnu snemma á starfsferlinum – að bæta líf fólks og auka aðgengi að lyfjum á viðráðanlegu verði. Með það að augnamiði stofnaði og byggði hann og samstarfsfólk hans upp samheita- og líftæknilyfjafyrirtæki sem eru leiðandi á heimsvísu.

Róbert Wessman er uppalinn í Mosfellsbæ, þar sem hann naut hefðbundinnar íslenskrar barnæsku. Hann heillaðist snemma af bæði læknisfræði og viðskiptum og varð síðarnefnda fagið fyrir valinu þegar hann valdi sér námsbraut í háskóla. Hann útskrifaðist úr viðskiptafræði 1993 og hóf svo störf hjá Samskip. Þar vann hann sig upp í stöðu framkvæmdastjóra starfseminnar í Þýskalandi.

Sýnin

Lyf á viðráðanlegu verði

Þegar Róbert Wessman var 29 ára eða árið 1999 ákvað hann að sameina ástríðu sína fyrir læknisfræði og viðskiptum. Hann flutti aftur til Íslands og varð framkvæmdastjóri Delta sem var lítið íslenskt lyfjafyrirtæki. Undir hans leiðsögn óx fyrirtækið hratt og varð að þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims undir nafninu Actavis.

Í starfi hans hjá Actavis styrktist sú sýn Róberts Wessman að bæta aðgengi fólks um allan heim að lyfjum á viðráðanlegu verði. Í því skyni stofnaði hann, ásamt samstarfsfólki og fjárfestum, Aztiq árið 2009. Aztiq sérhæfir sig í fjárfestingum í lyfjaiðnaði og heilsutengdri starfsemi og miðast öll fjárfesting og uppbygging Aztiq við þessa sýn Róberts Wessman.

Róbert Wessman og teymi hans hafa allar götur síðan haldið áfram á sömu braut og stofnað og byggt upp leiðandi fyrirtæki á sviði samheita- og líftæknilyfja um allan heim með góðum árangri.

„Þegar ég horfi til baka, þá var ég svo heppinn að vera hluti af frábæru teymi af afskaplega hæfileikaríku fólki.“

Róbert Wessman

Verkefnið

Fjárfestingar í lyfja- og heilsuiðnaði

Árið 2009, sama ár og Róbert Wessman stofnaði Aztiq, stofnaði hann ásamt samstarfsaðilum og fjárfestum samheitalyfjafyrirtækið Alvogen.

Alvogen hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar innan lyfjaiðnaðarins, þar á meðal verðlaun CPhI sem fyrirtæki ársins. Sem stjórnarformaður og forstjóri leiddi Róbert Wessman Alvogen frá litlu fyrirtæki sem framleiddi lyf fyrir aðra yfir í að vera eitt af 15 stærstu samheitalyfjafyritækjum heims, með starfsemi í 35 löndum. Árið 2019 seldi Alvogen félög sín í Mið- og Austur-Evrópu til Zentiva.

Árið 2013 stofnaði Róbert líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech sem samtvinnar allt frá eigin rannsóknarstarfi til fullunninnar vöru í hátæknisetri á heimsmælikvarða í Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýri. Alvotech er með nokkur hliðstæðulyf í þróun sem verða markaðssett þegar einkaleyfi renna út.

Dugnaður, hugrekki og traust

Leiðtogahæfileikar Róberts Wessman byggja á lausnamiðuðu viðhorfi hans, bjartsýni og trúnni á að hver sé sinnar gæfu smiður. Gildin úr uppeldi Róberts Wessman hafa mikil áhrif á lífsviðhorfin og þær fjölmörgu áskoranir sem hann hefur tekist á við endurspegla sjálfbjargarviðleitni hans. Róbert Wessman trúir því að barátta hans við lesblindu í æsku hafi mótað viðhorf hans og beint honum á þá braut að hugsa í lausnum í stað þess að einblína á vandamálin sjálf.

Bjartsýni hans og drifkraftur leyna sér ekki þegar hann ræðir um mjög alvarlegt hjólaslys sem hann lenti í 2013. Hann var í raun heppinn að lifa slysið af og í kjölfar þess fylgdu þrír mánuðir þar sem hann lá rúmfastur í heilspelku. Þessi lífsreynsla mótaði hann fyrir lífstíð og varð hvati til að einbeita sér enn frekar að því sem er honum mikilvægast.

„Mikilvægast fannst mér að vera jákvæður og trúa því að þetta færi allt vel að lokum án þess þó að vita nákvæmlega hvar þetta myndi enda.“

Þrátt fyrir alvarlegt ástand hans eftir slysið hafði baráttuandinn betur og hann fann leiðir til að geta haldið áfram að vinna þrátt fyrir að vera rúmfastur.

„Ég var í daglegu sambandi við nokkra lykilstarfsmenn fljótlega eftir að ég kom heim af Landspítalanum enda mikið að gerast hjá Alvogen á þessum tíma. Flestir tölvupóstarnir sem ég sendi voru mjög stuttir og laggóðir en áttu það flestir sameiginlegt að vera illskiljanlegir vegna stafsetningarvillna. Það þurfti því oft fleiri en einn til að ráða í táknmálið.“

„Ég gerði ekki ráð fyrir því að lenda í slysi. Þótt þetta hafi verið erfiður tími þá var hann samt gefandi og jákvæður.“

Róbert Wessman

Dæmi um velgengni

Árangur

Reynsla Róberts Wessman af framkvæmdastjórnun, afburðarþekking hans á lyfjaiðnaði og hæfileiki hans til að setja saman öflug verkefnateymi á heimsmælikvarða er ástæða vaxtar þeirra verkefna sem hann leiðir

Undir stjórn Róberts hafa fyrirtæki skilað metvexti og árlegur meðalvöxtur (CAGR) Alvogen hefur verið 32% og 55% hjá Actavis. Auk þess að byggja skilvirka innviði og vinnustaðamenningu sem leggur áherslu á frammistöðu hefur Róbert leitt rúmlega 50 samruna- og samstarfsverkefni og komið upp rekstri í rúmlega 60 löndum. Fyrirtæki hans hafa bæði sýnt mikinn innri og ytri vöxt.

Árangur Róberts Wessman hefur verið greindur í þremur „Case Studies“ hjá Harvard Business School:

Ræturnar

Hátæknisetur á Íslandi

Þegar tækifæri gafst til að byggja upp Alvotech sem hluta af nýju hátæknisetri í Vatnsmýri, í næsta nágrenni við Háskóla Íslands, hikaði Róbert Wessman ekki við að láta slag standa.

Nýjar höfuðstöðvar Alvotech hýsa, auk skrifstofurýma, rannsóknir líftæknilyfja, lyfjaframleiðslu og lyfjapökkun. Þær styðja einnig við iðnaðarlíftæknikennslu Háskóla Íslands því Háskólinn verður með aðstöðu í hátæknisetrinu fyrir meistaranám HÍ í iðnaðarlíftækni og þá býður Alvotech nemendum möguleika á starfsnámi innan fyrirtækisins.

Alvotech stefnir á að verða lykilstoð í íslenskum útflutningstekjum um 2026 eða 2027.

„Það var hvorki sjálfgefin né auðveld ákvörðun að staðsetja fyrirtækið á Íslandi. En að lokum snýst þetta um hvernig við byggjum upp þekkingu, ekki bara fyrir Alvotech, heldur fyrir samfélagið í heild.“

Róbert Wessman

Persónulegur stuðningur

Gefið til baka

Róbert Wessman, sem nú er fimm barna faðir, hefur alltaf lagt rækt við rætur sínar og það að geta gefið af sér er honum mikilvægt markmið.

Róbert lagði á það ríka áherslu að starfsemi Alvotech yrði byggð upp á Íslandi, enda gefur það honum færi á að byggja upp þekkingu – ekki einungis fyrir Alvotech, heldur samfélagið í heild.

Fyrirtæki Róberts Wessman hafa um árabil verið stoltir styrktaraðilar KR. Þótt knattspyrnuferill hans sjálfs innan KR hafi varað stutt og vikið fyrir áhuga hans á dansi hefur hann ætíð lagt mikið upp úr góðu samstarfi við félagið.

„Það að hvetja til heilbrigðs lífstíls og sérstaklega að hvetja til íþróttaiðkunar ungs fólks fellur undir það markmið Alvotech að bæta heilsu og lífsgæði fólks.“

Þorpið er nýtt vistvænt smáíbúðahverfi í Gufunesi, byggt á þeirri hugmyndafræði að bjóða hagkvæma búsetu fyrir byrjendur á fasteignamarkaðinum. Aztiq er stolt af því að taka þátt í uppbyggingu þess hverfis í samstarfi við Reykjavíkurborg.

Eigin barátta Róberts Wessman við lesblindu lá að baki því að Alvotech styrkti gerð heimildarmyndarinnar Lesblinda eftir tónlistarkonuna Sylvíu Erlu Melsted. Í myndinni eru m.a. birt viðtöl við sérfræðinga á sviði lesblindu auk reynslusagna af hindrunum og sigrum fólks með lesblindu.

Alvogen og Alvotech hafa verið stoltir styrktaraðilar Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) um árabil og styrkt fjölmörg verkefni á vegum samtakanna. Þar á meðal er stuðningur við COVAX verkefnið um bólusetningar við Covid-19 um allan heim.

„Við vitum að þátttaka í skipulögðum íþróttum og öðru æskulýðsstarfi er mikilvæg forvörn varðandi misnotkun vímugjafa.“

Róbert Wessman

Fljótandi afrakstur

Gæði í öndvegi

Róbert deilir ástríðu fyrir vínum og vínrækt með unnustu sinni Ksenia Shakhmanova. Eftir áralanga leit fundu þau vínekruna Château de Saint-Cernin í Bergerac héraðinu á Suður-Frakklandi. Á The Château ekrunni hefur vín verið ræktað frá 12. öld og þar er nú að finna einstæða ræktarskika.

Með ástríðu þeirra fyrir framlagi til nærsamfélagsins, metnaðarfullri viðskiptaáætlun og skýrri framtíðarsýn fyrir vaxtarmöguleika vínekrunnar hefur parið einsett sér að endurmóta og styrkja víngerðarsögu setursins. Með markaðssetningu „Wessman One“ kampavínsins, rauðvínsins „N°1 Saint-Cernin Rouge“ og hvítvínsins „N°1 Saint-Cernin Blanc“ geta allir notið afraksturs vinnusemi þeirra og alúðar.

Stiklað á stóru

Starfsferill

Leiðtogastarf og rekstrarárangur

Fyrirtæki rekin af Róberti Wessman hafa samanlagðan rúmlega 60% árlegan meðalvöxt tekna á árunum 1999-2016. Hann hefur leitt rúmlega 50 samruna- og samstarfsverkefni og komið upp rekstri í rúmlega 60 löndum. Árangur Róberts Wessman hefur verið greindur í þremur „Case Studies“ hjá Harvard Business School: „Robert Wessman and the Actavis Winning Formula“ (2008), „Alvogen“ (2015) og „Alvogen – Scaling entrepreneurship“ (2015).

Stjórnarformaður Lotus frá 2014 og til dagsins í dag

Róbert Wessman er stjórnarformaður Lotus. Lotus var stofnað árið 1966 og er samheitalyfjafyrirtæki með höfuðstöðvar í Taívan. Það varð hluti af Alvogen árið 2014.

Stofnandi og starfandi stjórnarformaður Alvotech frá 2012 til dagsins í dag

Alvotech er líftæknilyfjafyrirtæki sem samtvinnar allt frá eigin rannsóknarstarfi til fullunninar vöru í hátæknisetri á heimsmælikvarða í Vatnsmýri.

Stjórnarformaður og forstjóri Alvogen frá 2009 til dagsins í dag

Sem stofnandi og forstjóri hefur Róbert Wessman leitt Alvogen frá litlu fyrirtæki sem framleiddi lyf fyrir aðra í að vera eitt af 15 stærstu samheitalyfjafyritækjum heims með starfsemi í 35 löndum.

Forstjóri og lykilráðgjafi Actavis á árunum 1999 til 2008

Undir stjórn Róberts varð Actavis eitt af leiðandi samheitalyfjafyrirtækjum heims.